Atorka

samtök atvinnurekenda á Suðurlandi

1.gr.

Atorka er samtök fyrirtækja, einstaklinga og félaga, eða samtaka þeirra á Suðurlandi sem stunda viðskipti á samkeppnisgrundvelli. Félagar geta orðið fyrirtæki og einstaklingar sem stunda atvinnurekstur.

2.gr.

Markmið Atorku er að vinna að framfaramálum atvinnulífs á félagssvæðinu á öllum sviðum og vera vettvangur fyrir hugmyndir svo og umræður um málefni því tengdu. Atorka kemur fram fyrir hönd félagsmanna sinna gagnvart þeim opinberu aðilum sem samskipti þarf að hafa við.

Atorka skal meðal annars vinna að:

  1. Samstarfi og samvinnu fyrirtækja
  2. Samstarfi við opinbera aðila
  3. Fræðslu- og gæðamálum
  4. Öryggis- og vinnuverndarmálum
  5. Samgöngu- skipulags- umhverfis- og orkumálum

3.gr.

Atoka getur tekið að sér að annast framkvæmd ýmissa verkefna í samstarfi við yfirvöld eða aðra aðila, sem eflir framfarir í atvinnulífinu á félagssvæðinu.

4.gr.

Rétt til að sækja félagsfundi og fara með atkvæði þar hafa: stjórnendur, forstjórar, prókúrhafar fyrirtækja eða umboðsmenn þeirra. Atkvæðisréttur skal vera í hlutfalli við greidd árgjöld.

5.gr.

Aðalfundur Atorku er æðsta vald í málefnum samtakanna og skal haldinn fyrir lok maí ár hvert. Aðalfund skal boða með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Á aðalfundi skulu eftirtaldir liðir a.m.k. vera á dagskrá:

  1. Skýrsla stjórnar
  2. Afgreiðsla reikninga
  3. Kosning formanns
  4. Kosning annarra stjórnarmanna
  5. Kosning endurskoðenda
  6. Ákvörðun um árgjöld
  7. Önnur mál.

6.gr.

Stjórn Atorku skipa fimm menn. Varastjórnarmenn skulu vera tveir. Stjórnin skal kosin á aðalfundi og skal hlutkesti ráða ef atkvæði eru jöfn. Formaður skal kosinn fyrst í sérstakri kosningu til eins árs í senn og fjórir meðstjórnendur til tveggja ára og ganga tveir þeirra úr stjórn árlega. Stjórnin skal skipa sjálf með sér verkum að öðru leyti. Allir stjórnarmenn skulu hafa jafnan atkvæðisrétt innan stjórnar. Endurskoðendur skulu kosnir á aðalfundi og vera tveir, og tveir til vara. Varastjórn og endurskoðendur skulu kosnir til eins árs í senn.

Hafi formaður setið samfleytt í þrjú ár, má eigi endurkjósa hann formann fyrr en minnst tvö ár eru liðin frá því að hann lét af formennsku.

Hafi stjórnamaður setið samfleytt í fjögur ár í stjórn, má eigi endurkjósa hann í stjórn fyrr en minnst tvö ár eru liðin frá því að hann fór úr stjórn. Starfsár sem formaður eru þó ekki talin með í þessu samhengi.

7.gr.

Stjórn Atorku skal hafa forystu um starf samtakanna og skipa starfsnefndir eftir því sem þurfa þykir, til þess að vinna að einstökum málum. Stjórnin skal gera tillögu að árgjöldum og leggja fyrir aðalfund til samþykktar. Stjórnarfundir skulu bókaðir þar sem fram koma ákvarðanir og helstu umræðuefni. Fundargerð skal upplesin og staðfest í fundarlok.

8.gr.

Árgjöld ákvarðast á aðalfundi og reiknast skv.eftirfarandi reglu:

  • Félagi með 1-5 starfsmenn       greiðir eitt gjald
  • Félagi með 6-10 starfsmenn     greiðir tvöfalt gjald
  • Félagi með 11-50 starfsmenn   greiðir þrefalt gjald
  • Félagi með 51 og fleiri              greiðir fjórfalt gjald

9.gr.

Tillögur um breytingar á lögum þessum, skulu berast stjórn Atorku a.m.k. einni viku fyrir aðalfund.

Svona samþykkt á stofnfundi Atorku 07.05.1992